Hvernig er kerfið hugsað?

Uppbygging lífeyriskerfisins

Íslenska lífeyriskerfið er byggt á þremur meginstoðum:

1. Almannatryggingar
2. Skyldutrygging lífeyrissjóðanna (samtrygging)
3. Viðbótarlífeyrissparnaður

1.  Almannatryggingakerfið

Réttindi úr almenna tryggingakerfinu tengjast búsetu á Íslandi. Lífeyrir almannatrygginga er greiddur úr ríkissjóði. 

Greiðslur eru háðar öðrum tekjum lífeyrisþegans. Mánaðarleg lífeyrisgreiðsla til lífeyrisþega getur því verið mismunandi og fer eftir aðstæðum.

Almannatryggingar og lífeyrissjóðir eru með skylduaðild sem tryggir að allir sem búa og starfa á Íslandi fá eftirlaun til æviloka.

Sjá nánar:
Heimasíða TR

2.  Skyldutrygging lífeyrissjóðanna

Lögum samkvæmt eiga allir launamenn og þeir sem stunda sjálfstæðan atvinnurekstur frá 16 til 70 ára aldurs að greiða iðgjald í lífeyrissjóð sem nemur að lágmarki 15,5%, sem skiptist almennt milli launþegans og atvinnurekandans. Um er að ræða samtryggingarkerfi þar sem sjóðfélagar sameinast um að tryggja hver öðrum ellilífeyri til æviloka og verja sjóðfélagana og fjölskyldur þeirra fyrir tekjumissi vegna örorku eða andláts.

Lífeyrisgreiðslur lífeyrissjóða ráðast af iðgjaldagreiðslum á starfsævinni. Endanleg fjárhæð ræðst af launaþróun, réttindakerfum og afkomu sjóðanna. Greiðslur úr lífeyrissjóði geta haft áhrif á greiðslu lífeyris úr almannatryggingum. Sjá hér fyrir ofan og á vef TR

Nánar um skyldulífeyristryggingu - samtryggingu

  • Tilgreind séreign

Frá 1. janúar 2023 er lögbundið að sjóðfélagi getur ráðstafað 3,5% af lágmarksiðgjaldi sem er 15,5% inn á tilgreinda séreign.  Tilgreind séreign varð til í kjölfar kjarasamnings ASÍ og SA árið 2016. Hér er ekki um að ræða "venjulegan" séreignarsparnað og sjóðfélagar verða að taka sjálfir upplýsta ákvörðun um hvort þeir vilji fara þessa leið. Tilgreind séreign er erfanleg líkt og annar séreignarsparnaður. Lífeyrissjóðirinn þinn veitir nánari upplýsingar. 

Nánar um tilgreinda séreign

3.  Viðbótarlífeyrissparnaður

Viðbótarlífeyrissparnaður er valfrjáls. Launþegar hafa val um að greiða allt að 4% af heildarlaunum sínum til viðbótar við skylduiðgjaldið og fá að jafnaði mótframlag frá launagreiðanda. Viðbótarlífeyrissparnaður er séreign sem erfist.

Nánar um viðbótarlífeyrissparnað

Samspil almannatryggingakerfisins og lífeyrissjóðanna getur verið talsvert flókið þar sem lífeyrisgreiðslur og aðrar tekjur geta skert greiðslur almannatrygginga. Mikilvægt er að umsækjendur um ellilífeyri leiti ráðgjafar hjá Tryggingastofnun ríkisins vegna þessa samspils.  Einnig má skoða reiknivél lífeyris á tr.is